Fræðsla

Slitgigt er fylgifiskur öldrunar. Að fá slit í liðina er því ósköp eðlilegt, alveg eins og við fáum hrukkur á húðina þegar við eldumst. Aftur á móti er misjafnt hvað við finnum mikið fyrir slitbreytingunum. Sumir finna lítið til en aðrir mikið til óháð breytingum á röntgen mynd. Oftast leggst slitgigtin á hryggjarliði, hné, hendur og mjaðmarliði.

Einkenni slitgigtar eru verkir í liðnum, oft tengdir áreynslu, skert hreyfing og sjúklegar breytingar á liðnum. Einkennin eru oftast sveiflukennd og í byrjun er oft um að ræða væg köst tengd áreynslu. Næturverkir eru algengir á lengra gengnum sjúkdómi og einnig finna einstaklingar oft fyrir veðurbreytingum. Smám saman vilja einkennin þó verða meira samfelld en þetta er hægfara sjúkdómur. Í rauninni er slitgigt smávægilegt langvinnt bólguástand í liðnum. Þessi bólga veldur breyttu umhverfi í liðnum og skaðar brjóskfrumur og  verða þær verr í stakk búnar til að þola álag. Þegar brjóskið þynnist og brjóskgæði versna getur það valdið einkennum á borð við bólgu, bjúg og verki.

 Það góða er að viðeigandi styrktaræfingar minnka þessa skaðlegu bólguþætti sem eru slæmir fyrir brjóskið!

Það er algengt að þeir sem eru með slitgigt í hnjám-  og/eða mjöðmum eru líka fjölveikir. Að vera fjölveikur þýðir að vera með tvo eða fleiri langvinna sjúkdóma. Þetta eru kvillar á borð við háþrýsting, hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki II, offita, lungavandmál ofl.  Langalgengast eru háþrýstingur og sykursýki II. Fleiri fjölveikindi eru tengd við versnandi heilsu, lægri verkjaþröskuld, hægari gönguhraða og aukinni notkun á verkjalyfjum.

Þjálfun

Þegar við byrjum að þjálfa þá er í lagi að finna til í verkjaða liðnum svo lengi sem verkurinn fari ekki yfir ákveðin mörk. Að auki getur maður fundið meira til eftir æfingatíma, en sá verkur á að vera horfinn sólarhring seinna, ef ekki þá settirðu of mikið álag á liðinn.

 

Það hefur sýnt sig að fræðsla og þjálfun sýni besta mögulegan árangur til lengri tíma heldur en verkjalyf og mjúkpartameðferð. Það getur verið erfitt að byrja þjálfa þegar maður hefur verið í mikilli kyrrsetu. Margir lenda í vítahring verkja og vanvirkni því þeim finnst sársaukafullt að hreyfa sig og vita oft ekki hversu mikið álag má setja á liðinn.

 

Brjóskið í liðnum þarf hreyfingu til að nærast og viðhalda sér

 

Brjóskinu má líkja við svamp; við þungaburð pressast úrgangsefni út úr brjóskinu og þegar léttir á nær það að soga til baka næringarefni. Við mikla kyrrsetu verður meira niðurbrot á brjóskinu heldur en uppbygging einmitt út af skertu flæði til brjósksins. Einnig rýrna vöðvarnir við kyrrsetu en vöðvarnir halda við liðinn og styðja hann. Við styrktarþjálfun eyskt styrkur vöðvana sem verða þá betur í stakk búnir að styðja við liðinn. Þar af leiðandi finnur einstaklingur minna til við hreyfingar í dagsdaglegu lífi.

Sterkt samband er á milli verkja og styrks; því meiri styrkur, því minni verkir.

 

Alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar mæla fyrir um að þjálfun, sjúklingafræðsla og þyngdarstjórnun (ef þörf er á) skuli vera grunnmeðhöndlun við slitgigt í mjöðm og hné!

Alltof sjaldan er skjólstæðingum beint í þjálfun og fræðslu sem fyrsta grunnúrræði.

Næstu úrræði eru verkjalyf, sterasprautur, spelkur og önnur verkjameðferð.

Sterkt samband er á milli verkja og styrks; því meiri styrkur, því minni verkir.

Lokaorð

Það hefur sýnt sig að jafnvel einstaklingar með langt genginn sjúkdóm hafa gagn af námskeiðinu. Það kemur mörgum á óvart hvað mikið þeir geta lagt á sig við æfingar ef rétt er að þeim staðið og hve mikil áhrif það hefur til að minnka verki og bæta líkamsástand. Það er staðreynd að búast má við betri árangri því fyrr sem þjálfun er hafin. Mikilvægt er því að beina fólki með liðeinkenni frá hné og mjöðm sem fyrst í viðeigandi fræðslu og gagnreynda þjálfun.

Þórfríður Soffía Haraldsdóttir